„Í upphafi skal endinn skoða“
Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna segir samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 15. september um að Reykjavíkurborg sniðgangi ísraelskar vörur verulega vanhugsaða og megi líkja við skemmdarverk. Grundavallarmunur er á samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur og samþykkt borgaryfirvalda í Kaupmannahöfn sem borgarstjóri hefur vísað til í fjölmiðlum undanfarið. Staðreyndin er einfaldlega sú að borgarstjórn Reykjavíkur gengur mun lengra í sinni samþykkt.
Sveitarfélög landsins eru bundin að lögum sem þeim, líkt og öllum öðrum, ber skylda að virða og fara eftir. Það er því augljóst, eins og fjölmargir hafa nú þegar bent á, að samþykkt þessi fer gegn lögum um opinber innkaup þar sem segir að óheimilt sé að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
Það er einnig á mjög gráu svæði að sveitarfélög landsins fari að móta sína eigin utanríkisstefnu sem getur haft verulega alvarleg áhrif viðskiptahagmuni þjóðarinnar. Stjórn sambands ungra framsóknarmanna hvetur borgarstjórn Reykjavíkur til að draga ákvörðunina strax til baka. Af fréttum má sjá að ákvörðunin er farin að hafa mikil áhrif á innlend fyrirtæki þar sem vörur þeirra hafa verið fjarlægðar úr verslunum erlendis. Fyrirtæki, um allt land, eiga ekki að þurfa að gjalda fyrir vanhæfni meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur.